Góðtemplarareglan á Akureyri afhenti Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) í gær 50 milljónir króna að gjöf til stofnunar á sérstökum sjóði sem varið verður til kaupa á tækjum og búnaði til greiningar og meðferðar hjartasjúkdóma á FSA.

Hér er um að ræða einhverja alstærstu gjöf sem FSA hefur fengið frá upphafi.

Halldór Jónsson, forstjóri sjúkrahússins sagði við afhendinguna í gær að gjöfin hefði gríðarlega mikla þýðingu fyrir það og stóryki möguleika á að greina, rannsaka og fást við hjartasjúkdóma. Um einstaka gjöf sé að ræða: „Til að segja fullum fetum að þetta sé stærsta gjöfin frá upphafi þyrfti að framreikna verðmæti stórra gjafa frá fyrri árum og áratugum. Þó það hafi ekki verið gert, get ég hiklaust fullyrt að þetta er einhver alstærsta einstaka gjöf sem sjúkrahúsinu hefur borist frá upphafi," segir Halldór.

Afrakstur 125 ára starfs sem nú lýkur

Góðtemplarareglan á Íslandi var stofnuð hinn 10. janúar 1884. Til að standa straum af umfangsmiklu starfi sínu stofnuðu stúkurnar á Akureyri til ýmiss konar fyrirtækjareksturs og byggðu stórhýsi undir starfsemina. Þau setja enn þann dag í dag sterkan svip á bæjarmyndi Akureyrar og má þar nefna Samkomuhúsið, Skjaldborg og Borgarbíó. Þá áttu og ráku stúkurnar einnig Hótel Varðborg um langt skeið. En fyrirtæki hennar og hús hafa nú verið seld og hluti andvirðis þeirra  verið notaður til að gera upp Friðbjarnarhús við Aðalstræti, sem kennt er við stofnanda reglunnar, Friðbjörn Steinsson, bóksala. Þeir fjármunir sem eftir eru af tæplega 125 ára starfi Góðtemplarareglunnar á Akureyri hafa nú verið afhentir Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Árni Valur Viggósson, stjórnarformaður Góðtemplarareglunnar á Akureyri segir að með gjöfinni megi heita að „hinu heilladrjúga starfi, sem stúkurnar lögðu fram til farsællar lífsgöngu Akureyringa, sé lokið. Saga hins merka félags-, menningar- og mannúðarstarfs, sem góðtemplarar á Akureyri inntu af hendi, mun hins vegar lifa áfram í þessari gjöf sem og í safninu Friðbjarnarhúsi.”