"Ég er þeirrar skoðunar að það væri gott fyrir þýska ferðamarkaðinn til Íslands að lággjaldaflugfélag komi inn á markaðinn. Lággjaldaflugfélag sem kemur af krafti inná markaðinn vekur athygli nýrra markhópa sem leiguflugfélögin og Icelandair eru ekki að sinna eins og stendur. Með aukinni samkeppni eykst markaðsstarf þeirra sem keppa á markaðnum og kakan sem er til skiptana fyrir markaðsþáttakendurna stækkar," segir Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Katla DMI í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Katla DMI sérhæfir sig í ferðum með þýskumælandi ferðamenn til Íslands. Ekki er langt síðan Iceland Express greindi frá áhuga sínum á að fljúga til nýrrar borgar í Þýskalandi.

Á þessu markaðssvæði búa 100 milljónir manna og aðeins tæplega 50.000 gestir heimsækja Ísland árlega. "Þetta er mjög lágt hlutfall sem sést vel í því samhengi að við þurfum miðað við núverandi árangur 20 ár til þess að fá eina milljón Þjóðverja til landsins. Jákvæð umfjöllun um Ísland í fjölmiðlum á svæðinu hefur verið geysileg undanfarin ár og almennur áhugi almennings hefur aukist til muna. Það sem helst heldur fjöldanum frá landinu er verðlag á íslenskri ferðaþjónustu, auðvitað eru aðrir þættir sem skipta máli en verðlagið er að mínu mati stærsti þröskuldurinn," segir Pétur.