Ísland er byrjað að markaðssetja sig sem heppilegur kostur til að reisa gagnageymslur, bæði í krafti kalds loftslags og vistvænnar raforkuframleiðslu, segir í grein í nýútkomnu tölublaði The Economist.

Í greininni er fjallað um mikla aukningu í byggingu slíkra geymslustöðva og birt ljósmynd af áformaðri gagnageymslu á vegum Data Íslandia, sem hefur aðsetur í Hafnarfirði, og Hitachi Data Systems.

Eins og kunnugt er var fyrir um ári greint frá því að Data Íslandia hyggðist byggja umhverfisvæna gagnageymslu og gagnaþjónustu á Rockville-svæðinu á Miðnesheiði. Var að því stefnt að endurnýjanleg orka myndi knýja starfsemina og náttúruleg vindkæling draga úr orkuþörf.

Sjö þúsund gagnageymslur í Bandaríkjunum einum

Í greininni í The Economist er m.a. fjallað um borgina Quincy í Washington-ríki þar sem um hálfur tugur gagnageymsla er að finna, í eigu fyrirtækja á borð við Microsoft og Yahoo!.

Um er að ræða risavaxnar vörugeymslur, troðfullar af tölvubúnaði og tengdar við netið með háhraðatengingum.

Í Bandaríkjunum er að finna um sjö þúsund gagnageymslur af svipuðum toga, sem geyma m.a. sífellt fleiri miðlara (servers) og er áætlað að þar í landi verði miðlarar orðnir tæplega 16 milljón talsins árið 2010.

Hins vegar er þróun í þá veru að sameina gagnageymslurnar og gera þær stærri og m.a. nefna sem dæmi að Hewlett-Packars, stærsti tölvuframleiðandi í heimi, hyggst láta sex geymslur í Bandaríkjunum leysa af hólmi 85 geymslur sem fyrirtækið starfrækir nú vítt og breitt um heiminn.

Google starfrækir um þessar mundir um 30 gagnageymslur á heimsvísu og talið að þær geymi ríflega eina milljón miðlara.

Microsoft sækir hart að og hefur fjárfest milljarða dollara í að fjölga miðlurum sínum og bætast nú 20 þúsund við á mánuði.

Þurfa mikla orku

Í greininni er bent á að með fjölgun miðlara og samþjöppun þeirra þurfi stöðugt meiri orku til að halda gagnageymslunum við herbergishita, oft á tíðum jafnmikla orku og þarf til sjálfrar gagnavinnslunnar. Stærstu gagnageymslur í heimi nota nú álíka mikla orku og álver.

Ný gagnageymsla Microsoft skammt frá Chicago, sem kostaði um 500 milljónir dollara að byggja, þarfnast um 198 MW af orku.

Af þeim sökum snýst staðarval fyrir gagnageymslur öðru fremur um að tryggja ódýra og tryggja raforku. Hörgull er á slíkum stöðum í Bandaríkjunum og því líta risavöxnu tölvufyrirtækin út fyrir landsteinana og má nefna að Microsoft er um þessar mundir að kanna möguleika á að byggja gagnageymslu í Síberiu, sem þykir bjóða upp á náttúrulega kælingu í ómældu magni.