Að því er fram kemur í Vefriti fjármálaráðuneytisins í dag þykir almennt mjög gott ástand efnahagsmála á Norðurlöndunum, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

?Hagvöxtur er almennt mikill, en hann er alls staðar meiri en að meðaltali á evrusvæðinu. Mestur hagvöxtur mælist nú á Íslandi. Norðurlöndin eiga það sammerkt að vöxtur er drifinn af aukinni einkaneyslu, sem má rekja til lágra vaxta, batnandi ráðstöfunartekna og bættrar eignastöðu almennings vegna hækkandi verðs á íbúðarhúsnæði. OECD spáir 4,1% hagvexti á Íslandi á þessu ári og 1,4% á því næsta," segir greiningardeildin.

Ísland sker sig úr, hvað viðskiptajöfnuð við útlönd varðar. "Viðskiptajöfnuður mælist nú jákvæður gagnvart útlöndum á öllum Norðurlöndunum, að Íslandi undanskildu. Atvinnuleysi fer minnkandi í öllum fimm Norðurlöndunum, minnst mælist það á Íslandi en mest í Finnlandi. Verðbólga fer vaxandi í öllum Norðurlöndunum, líkt og í stærstu hagkerfum heims. Búist er við að verðbólga haldist á bilinu 1,3 og 2,3%, að Íslandi undanskildu," segir greiningardeildin.