„Einn helsti styrkleiki okkar felst í smæðinni, en líka margir af okkur helstu veikleikum." Þetta sagði Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, á fundi ráðsins og VÍB um skýrslu IMD, um samkeppnishæfni Íslands.

Auk Frosta voru Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas, Jakob Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Promens og Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS í pallborði. Helsta umræðuefnið var hvað mætti gera til að bæta samkeppnishæfni Íslands, en hún mælist rétt fyrir ofan miðbik meðal þróaðra þjóða og nýmarkaðsríkja.

Gætum þurft að fara út fyrir siðferðisþröskulda

Var ýmislegt nefnt í sambandi við samkeppnishæfni Íslands, til að mynda aukin skilvirkni í atvinnulífinu, framleiðni, erlend fjárfesting, afnám hafta og fleira.

Frosti gerði, eins og fyrr segir, smæð Íslands að umtalsefni. Hann sagði að smæðin gerði okkur oft erfit fyrir en lagði að því búnu fram nokkuð framsæknar lausnir á þeim vanda. „Ef við gætum þrefaldað mannfjölda og þrefaldað meðalhitastigið, þá held ég að Ísland gæti mögulega orðið besta land í heimi," sagði Frosti.

Hann maldaði í móinn eftir skamman umhugsunarfrest: „Við gætum nú kannski ekki gert það án þess að fara út fyrir einhverja siðferðisþröskulda." Lásu fundargestir eitthvað misjafnt úr þessum vangaveltum Frosta svo að hlátur færðist yfir salinn. Hann bætti því við, til skýringar: „Ég átti nú við að við myndum klóna."

Nánar er fjallað um samkeppnishæfni Íslands í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .