Auglýsingastofan Gott fólk var tekin til gjaldþrotaskipta fyrir um það bil viku og nema skuldir um 273 milljónum króna. Íslandsbanki er stærsti lánardrottinn stofunnar með kröfu upp á um 113 milljónir.

Ekki er búist við því að mikið fáist upp í skuldirnar en einu eignirnar í þrotabúinu eru, eftir því sem næst verður komist, tölvur, tölvubúnaður og skrifstofuhúsgögn. Bókfært virði þeirra eigna nemur um 53 milljónum króna en ólíklegt þykir að þær eignir verði seldar á því verði.

Útistandandi skuldir eru um 29 milljónir króna og er sömuleiðis ekki búist við því að auðvelt verði að ná þeim.

Ekki var grundvöllur til sameiningar

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins voru þreifingar á milli forsvarsmanna auglýsingastofunnar Góðs fólks og auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks ehf. fyrr í mánuðinum um mögulega sameiningu en það náði ekki fram að ganga vegna þess að staða Góðs fólks var verri en búist var við.

Um það bil tíu starfsmönnum Góðs fólks hefur hins vegar verið boðin vinna hjá Jónsson & Lemacks og er sömuleiðis vonast til þess að viðskiptavinir færist einnig yfir.

Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Góðs fólks, vildi ekki tjá sig um þrotabú Góðs fólks þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því.

Gott fólk var í eigu félags í eigu Karls Wernerssonar hjá Milestone.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í kvöld.