Hlutabréf í bresku verslunarkeðjunni Tesco hækkuðu töluvert í dag eftir að félagið tilkynnti að heildarvöxtur sölu á þriðja fjórðungi fjárhagsársins næmi 12%. Hefur söluvöxturinn ekki verið meiri síðan á árinu 2000. Bréf í Tesco hækkuðu um allt að 4,5% í kjölfarið og fóru hæst í 311,5 pens á hlut en gengi félagsins hefur ekki verið hærra í a.m.k 16 ár. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans en kl.16:00 var gengi félagsins 310,25 og hefur hækkað um 4,2%.

"Gott gengi félagsins má til að mynda rekja til aukinnar markaðshlutdeildar í vöruflokkum öðrum en matvöru. Tesco hefur langt áherslu á vörur, sem gefa mikla framleiðni, á borð við DVD diska og heimabíókerfi. Þá má einnig rekja söluaukninguna til útrásar Tesco en félagið hefur aukið markaðshlutdeild sína utan Bretlands undanfarin ár og lagt áherslu á ört vaxandi markaði. Útrás Tesco hófst árið 1993 og er félagið nú leiðandi á sínu sviði í Ungverjalandi, Póllandi, Slóvakíu og Tælandi. Í síðasta mánuði hóf Tesco síðan starfsemi í Suður Kóreu en Bakkavör tilkynnti nýlega að stefnt sé að opnun verksmiðja í Asíu til að fylgja eftir útrás Tesco. Erlend starfsemi vegur um 20% í heildarsölu Tesco og hefur útrásin átt sinn þátt í því að auka virði félagsins um 18% á árinu," segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er einnig bent á að sérfræðingar breska bankans Barclays telja að áhersla Tesco á útrás bendi til að vænta megi áframhaldandi vaxtar á næstunni. Framtíð Tesco virðist því vera björt. Þess má geta að Tesco er stærsti viðskiptavinur Bakkavarar en um 2/3 af sölu félagsins fer til Tesco. Þá er Tesco einnig stór og mikilvægur viðskiptavinur SH og SÍF sem hafa í auknum mæli verið að færa sig yfir í kæld matvæli undanfarin misseri. Gengi Bakkavarar hækkaði um 2,5% í dag en gengi SH lækkaði um 0,6%. Gengi SÍF lækkaði einnig eða um 1,4%.