Heildarfjárhæð höfundarréttargreiðslna frá STEF voru 420.103.975 krónur í ár. Er um nokkra hækkun frá fyrra ári að ræða sem skýrist helst af góðum reksturs hjá STEF. Þetta er haft eftir Guðrúnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra STEFS, á Kjarnanum .

„En aðallega skýrist hækkunin af auknum flutningi íslenskrar tónlistar erlendis,“ segir hún jafnframt. Rétthafar eru ýmist flytjendur, höfundar eða félög sem hafa tryggt sér höfundarréttinn. 149.546.048 krónur af heildarúthlutun munu renna til erlendra aðila.

Í gegnum tíðina hefur mikill fjöldi höfundaverka safnast upp sem eru skráð hjá STEF og eru þau orðin 69.491 og fjölgar um 3.000 verk á ári. Guðrún segir að ekki sé óalgengt að rétthafi þéni 500-600 þúsund krónur á lagi sem nái mikilli útbreiðslu hérlendis.