Rekstur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja gekk talsvert betur síðasta sumar heldur en árið áður. Viðskiptavinum 68% fyrirtækja í greininni fjölgaði mikið á milli áranna 2020 og 2021 samkvæmt niðurstöðum könnunar Ferðamálastofu sem birt var í vikunni. Má það fyrst og fremst rekja til fjölgunar ferðamanna á milli ára en hlutfall útlendinga af viðskiptavinum ferðaþjónustufyrirtækjanna jókst úr 43% í 65%.

Velta hjá fleiri en þremur af hverjum fjórum fyrirtækjum jókst á milli ára en var þó lægri en sumarið 2019 hjá 57% fyrirtækja. Flest fyrirtæki sögðu sumarið hafa farið fram úr væntingum en einungis 10% sögðu það undir væntingum. Um 80% ferðaþjónustufyrirtækja skiluðu jákvæðum rekstarhagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) í sumar sem er mikil aukning frá fyrra ári þegar einungis 27% skiluðu jákvæðri EBITDA.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) segir niðurstöðurnar ánægjulegar og betri en hann átti von á. Hluti af ástæðunni kunni að stafa af því að greinin í heild sinni hafi farið gaumgæfilega í gegnum rekstur sinn og tekið alla  kostnaðarliði til endurskoðunar vegna faraldursins.

Spurður út í veturinn og horfunar framundan, segir Jóhannes að októbermánuður hafi komið mjög vel út og að háannatímabilið hafi mögulega náð lengra inn í haustið en áður. Hins vegar hafi hertari sóttvarnareglur bæði hér á landi og erlendis leitt til þess að bókanir ferðamanna fyrir jólin og næstu 2-3 mánuði hafi hrunið niður. Óvissan sé mikil eftir sem áður vegna veirunnar.

Gjaldþrotahrina framundan?

Samtök ferðaþjónustunnar telja að svo hægt sé að ná viðunandi afkomu í greininni þurfi ferðamenn að vera í það minnsta 1,5-1,7 milljónir talsins á ári. Það stefnir í að fjöldi ferðamanna verði um 700 þúsund í ár og 1,4 milljónir árið 2022 ef allt gengur eftir.

Sjá einnig: Ferðaþjónustan enn í rjúkandi báli

Fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustunnar á Íslandi fækkaði um 330 á milli ára og voru 4.340 í lok síðasta árs. Spurður hvort líkur séu á mörgum gjaldþrotum á næstunni segir Jóhannes nær öruggt að töluverðar breytingar muni eiga sér stað í geiranum. Ýmis fyrirtæki hafi haldið sér á lífi með stuðningi stjórnvalda og fjármálastofnana sem hafi frestað fjárhagslegri endurskipulagningu í greininni. Nú þegar ríkið fer að draga úr stuðningsaðgerðum þurfa fyrirtæki að meta hvort tekjur dugi til að lifa af þegar tekið er tillit til afborgana skulda, fasts kostnaðar ásamt starfsmannakostnaði fram á næsta sumar.

„Ég held að fyrirtæki sem voru lent í fjárhagslegum kröggum fyrir faraldurinn muni þurfa að setjast mjög alvarlega yfir það hvort skynsamlegt sé að halda rekstrinum áfram.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .