Hagnaður Bakkavarar Group á þriðja fjórðungi nam 15,2 milljón punda en greiningardeild Glitnis hafði spáð 15,6 milljón punda hagnaði og er því í takt við væntingar.

Tekjur samsteypunnar námu 332 milljón pundum en greiningardeild Glitnis spáði 317 milljón pundum og skýrist af yfirtöku á New Primebake á þriðja fjórðungi.

?Á fjórðungnum var sala á ferskum ávöxtum og grænmeti (e. produce) nú færð eins og aðrar vörur en áður færði félagið einungis framlegðina af þessari sölu. EBITDA framlegðin var 40,4 milljón punda eða 12,1% af tekjum," segir greiningardeildin sem spáði 40,7 milljón punda EBITDA eða 12,6% af tekjum.

Langtímaskuldir greiddar niður

?Efnahagur félagsins styrkist enn frekar á milli fjórðunga en eiginfjárhlutfall félagsins er nú 16,5% miðað við 15,2% í lok annars fjórðungs. Langtímaskuldir Bakkavarar lækkuðu um 30 milljón pund en skammtímaskuldir hækkuðu lítillega að sama skapi á tímabilinu. Gera má ráð fyrir að áframhald verði á niðurgreiðslu skulda næstu misserin," segir greiningardeildin.

Sjóðstreymi félagsins eykst frekar

Hún segir að handbært fé frá rekstri hafi verið 50,9 milljón punda á þriðja fjórðungi sem er veruleg aukning frá öðrum fjórðungi, eða 24,6 milljón pund, því ríflega tvöfaldast sjóðstreymi Bakkavarar í fjórðungnum.

Horfur á komandi misserum

"Bakkavör heldur enn við arðsemismarkmið sín um 12% - 14% EBITDA hlutfall. Gera má ráð fyrir að það verði endurskoðað í ljósi þess að grunnrekstur félagsins hefur breyst með tilkomu bakaríanna og vegna breytingar á meðferð á sölu á ferskum ávöxtum og grænmeti.

Á síðasta fjórðungi ársins má gera ráð fyrir að tryggingabætur, sem nema um 20 milljón pund umfram bókfært virði eigna, verði greiddar vegna bruna tveggja framleiðslueininga í apríl 2005 og mun það hafa bein áhrif á hagnað félagsins á síðasta fjórðungi ársins," segir greiningardeildin.