Commerzbank, sem FL Group á 3,24% hlut í, birti uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung í morgun. Hagnaður hluthafa nam 768 mmilljónum evra (67,5 milljarðar króna) á fjórðungnum sem var yfir meðalspá greiningaraðila um 725 milljóna evra hagnað.

Í Morgunkorni Glitnis er bent á að sterkur innri vöxtur er aðalskýring aukins hagnaður en góður gangur í þýska hagkerfinu hefur stutt vel við starfsemi bankans. Árangur á 1H 2007 er sá besti í sögu bankans en hagnaður á tímabilinu nam 1.377 milljónum evra. Vöxtur var á öllum tekjusviðum á 1H 2007 fyrir utan lánasvið þar sem tekjur drógust lítillega saman. Afkoma af fjárfestingastarfsemi bankans var sérstaklega góð og jókst hagnaður um 42% frá sama tímabili í fyrra segir í Morgunkorni.

Þar er bent á að Commerzebank hefur ekki farið varhluta af vanskilum á bandarískum húsnæðismarkaði og hefur tilkynnt að hann þurfi að afskrifa meira en 80 mmilljónir evra (7 milljarðar.kr.) vegna kaupa á skuldabréfum með eign í annars flokks lánum frá Bandaríkjunum. Gengi bréfa í bankanum hefur fallið töluvert undanfarið og er V/I bankans nú 1,23 en til samanburðar má geta þess að V/I á íslensku bönkunum 2,7-2,8 segir í Morgunkorni.