Uppgjör Glitnis banka verður að teljast nokkuð gott, en niðurstaðan er umfram væntingar eins og niðurstöður fyrri uppgjöra ársins, segir greiningardeild Landsbankans. Gengi Glitnis hækkaði um 2,17% í dag, samkvæmt upplýsingum frá M5.

?Hagnaður þriðja ársfjórðungs eftir skatta nam 8,8 milljörðum króna, en við spáðum um 7,6 milljarða króna hagnaði á tímabilinu. Mismunurinn stafar að mestu leyti af hærri hreinum vaxtatekjum og lægri virðisrýrnun útlána en við gerðum ráð fyrir, sem verður að teljast jákvætt. Söluhagnaður eigna og gengishagnaður var undir væntingum," segir greiningardeild Landsbankans.

Greiningardeild Kaupþings reiknaði með 8,4 milljarða króna hagnaði og er afkoman því 0,2 milljörðum króna yfir spá. ?Er afkoma bankans því lítillega yfir væntingum greiningardeildar á tímabilinu og á heildina litið þykir okkur uppgjörið gott. Helstu þættir þar að baki eru hærri hreinar vaxtatekjur en við gerðum ráð fyrir, verulega lægri virðisrýrnun útlána og mun meiri hagnaður af sölu dóttur- og hlutdeildarfélaga," segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Hreinar vaxtatekjur eru talsvert yfir væntingum. Vaxtamunur á fjórðungnum nam 2% af heildareignum, sem er sami vaxtamunur og á þriðja fjórðungi síðasta árs. Þóknanatekjur dragast lítið eitt saman á milli fjórðunga eins og við var að búast en þær hafa tæplega þrefaldast frá sama tímabili í fyrra.

Skýring aukningar í þóknanatekjum liggur meðal annars í þeim rekstrareiningum sem Glitnir hefur fjárfest í á árinu, en það eru allt einingar sem byggja afkomu sína á þóknanatekjum og renna því frekari stoðum undir grunntekjumyndun bankans," segir greiningardeild Landsbankans.

Hún segir að lítilsháttar samdráttur sé í heildareignum bankans frá fyrri fjórðungi, eða rúmlega 3%. "Samsvarandi samdráttur var í útlánum til viðskiptavina bankans. Ef leiðrétt er fyrir áhrifum styrkingar krónunnar þá óx bankinn um 2% á fjórðungnum og nemur raunvöxtur heildareigna bankans 15% það sem af er ári," segir greningardeildin.