Hagnaður Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka var undir væntingum greiningardeildar Landsbankans. Stærstan hluta spáskekkjunnar má rekja til ofmats á gengishagnaði af verðbréfasafni félagsins.

Hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi nam 12,6 milljörðum króna, samanborið við 6,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi.

Arðsemi eigin fjár nam 46% á fjórðungnum og 46,5% fyrir árið í heild, segir greiningardeildin.

Á afkomufundi Straums-Burðaráss sem haldinn var í kjölfar birtingar uppgjörsins kom fram að forsvarsmenn bankans eru fullir bjartsýni, enda hafa þeim opnast margar dyr.

Eftir söluna á Íslandsbankahlutnum hækkaði CAD-hlutfall bankans mikið og vaxtarmöguleikar hafa aukist, auk þess sem fyrsta lánshæfismat bankans kemur til með að auka aðgengi að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum, segir greiningardeild Landsbankans.