Norska internetþjónustu fyrirtækið Opera Software hagnaðist um 7,8 m.NOK (76,4 m.kr.) fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) á öðrum ársfjórðungi, samanborið við 2,4 m.NOK (23,5 m.kr.) hagnað á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi jukust um 74% frá fyrra ári og námu alls 40,4 m.NOK (2,0 mö.kr.). Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að eftirspurn eftir Opera Mini netvafranum sem fyrirtækið framleiðir var mjög mikil á öðrum ársfjórðungi. Opera Mini er netvafri fyrir farsíma sem notið hefur mikilla vinsælda. Á undanförnum misserum hafa margir af stærstu farsímaframleiðendum í heimi gert samninga við Opera um notkun vafrans í farsímum þeirra. Í tilkynningu frá Opera kemur fram að í lok annars ársfjórðungs voru alls 6,7 milljón farsímar í notkun sem báru Opera Mini vafrann og að á sama tíma síðasta árs hafi fjöldi slíkra síma aðeins verið 3,2 milljónir. Notkun Opera Mini vafrans hefur því rúmlega tvöfaldast á einu ári, sem verður að teljast nokkuð gott.

Í tilkynningu frá Opera kemur fram að forsvarsmenn félagins geri ráð fyrir því að afkoma ársins verði sú besta í sögu félagsins. Þá benda þeir á að á öðrum ársfjórðungi hafi félagið undirritað stóra samninga við farsímaframleiðendurna Nokia og Motorola um notkun Opera Mini vafrans í nýjustu farsíma þeirra. Þessir samningar koma til með að skila Opera miklum tekjum á öðrum og þriðja ársfjórðungi.

Opera var skráð á hlutabréfamarkað í mars á síðasta ári. Frá áramótum hefur gengið hækkað mikið, eða um rúm 75%. Markaðsvirði félagsins er 1,5 ma.NOK (15,1 ma.kr.).

Byggt á frétt Vegvísis Landsbankans.