Í upphafi árs spáði greining Íslandsbanka að Úrvalsvísitala Aðallista myndi hækka um 15% á árinu en sú hækkun er nokkuð í takti við þá ávöxtunarkröfu sem þeir geru að meðaltali til félaganna í vísitölunni. "Spáin byggði á spám okkar um afkomu félaganna í ár, verðkennitölum, verðmötum okkar á fyrirtækjunum og mati okkar á almennri stöðu á hlutabréfamarkaðinum. Við teljum góðar horfur í rekstri fyrirtækjanna almennt og að framundan sé útrás og hröð framþróun stærstu fyrirtækjanna á markaðinum. Ekki er hægt að segja annað en að árið hafi farið vel af stað. Úrvalsvísitala Aðallista hefur hækkað um 8,1% frá áramótum og hefur því ríflega helmingur af spáðri hækkun okkar á árinu þegar komið fram," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Íslandsbankamenn segja einnig að óvissan í ofangreindri spá sé mikil og tókum við fram við birtingu hennar að innan hópsins sem spána gerði voru talsvert skiptar skoðanir um hækkunina á árinu. Lágu spár einstakra aðila á bilinu 8% til 24%. Segja má samt að þetta sé ekki mjög vítt bil. Þannig spáði enginn lækkun vísitölunnar yfir árið. Heilt á litið erum við því tiltölulega bjartsýn á þróun hlutabréfamarkaðarins í ár og hefur þróunin þessar fyrstu vikur ársins verið umfram okkar væntingar.

Hækkanirnar þessar fyrstu vikur ársins hafa einnig verið meiri en fagfjárfestar hafa almennt reiknað með ef marka má viðhorfskönnun sem Gallup gerði meðal fagfjárfesta á tímabilinu 3.-21. desember á síðasta ári. Þar var spurt: Hvað mun Úrvalsvísitala íslenskra hlutabréfa hækka eða lækka mikið í prósentum talið á næstu 6 mánuðum? Fjórðungur taldi að hún myndi lækka, ríflega helmingur að hún myndi hækka og afgangurinn að hún myndi standa í stað. Heildarniðurstaðan var spá um 4,1% hækkun Úrvalsvísitölunnar á næstu sex mánuðum.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.