Ataman Vega Vega aðstoðar íslensk fyrirtæki við að koma sér upp starfsemi eða koma sér alfarið fyrir á Kanaríeyjum, en stjórnvöld þar bjóða veglega skattalega hvata til erlendra fyrirtækja sem hefja þar starfsemi. Ataman bjó í sjö ár á Akureyri og þekkir því vel til Íslendinga. Hann segir tækifærin mikil fyrir íslensk fyrirtæki á Kanaríeyjum.

Ataman er fæddur og uppalinn á Gran Canaria, þriðju stærstu eynni í klasanum og þeirri næstfjölmennustu. Hann flutti nýlega aftur til Kanaríeyja og er ólmur að leggja sitt af mörkum til að styðja við hagkerfið þar, sem hefur átt erfitt uppdráttar.

Borga aðeins fimmtung fyrirtækjaskatts

Skattar á eyjunum eru þegar mun lægri en á meginlandi Spánar, en erlendum fyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði bjóðast enn betri skattakjör, aðeins 4% tekjuskattur, en hann er almennt 19%. Skilyrðin eru að vera með lágmark fimm starfsmenn sem búsettir eru á staðnum, og fjárfesta fyrir að lágmarki 100 þúsund evrur fyrstu tvö árin. Sé starfsemin staðsett á einni af minni eyjunum - en alls er byggð á átta eyjum á svæðinu - eru skilyrðin helminguð.

„Þegar ég bjó á Akureyri sá ég strax tækifæri í að laða íslensk fyrirtæki til Kanaríeyja. Ef mér tækist að fá þau stóru og stöndugu íslensku fyrirtæki sem ég kynntist hér til að opna þó ekki væri nema litla starfsstöð hefði það afar jákvæð áhrif á efnahaginn heima fyrir." Ataman er sjálfur forritari að mennt og vinnur fyrir þýskt hugbúnaðarfyrirtæki, sem hann vann einnig hjá á meðan hann bjó á Akureyri, enda hægt að sinna slíkum störfum hvar sem er í heiminum.

Tækifæri í nálægðinni við Afríku

Meðal kosta þess að vera með starfsstöð á Kanaríeyjum - að skattalegu hvötunum undanskildum - segir Ataman vera nálægðina við Afríkumarkað. Þar sem flókið getur reynst að koma sér fyrir á nýjum og framandi stað býður Ataman íslenskum fyrirtækjum aðstoð við það endurgjaldslaust. „Þetta auðvitað er ekki bara spurning um skatta. Þú þarft að leigja húsnæði, útvega starfsfólk og þar fram eftir götunum. Ég býð fram aðstoð við það til að hjálpa eyjunni minni."

Ef vel tekst til og verkefnið fer að taka upp stóran hluta af tíma Atamans útilokar hann ekki að gera það að heildstæðum rekstri og fara að innheimta þóknun til að standa undir tíma og kostnaði.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um mikinn uppgang leigufélags í byggingariðnaði.
  • Samantekt á breytingum á hlutabréfaverði í kjölfar uppgjöra.
  • Listaverkasalar finna fyrir auknum umsvifum þegar að kreppir.
  • Framkvæmdastjóri einkafyrirtækis á smásölumarkaði með raforku segir smásölumarkaðinn vanþróaðan.
  • Ólík hagþróun hefur átt sér stað eftir landshlutum undanfarin ár.
  • Borgarstjóri neitar því að RÚV hafi verið veittur afsláttur af innviðagjöldum.
  • Greint frá góðri stöðu Íslands á velsældalista Legatum Institute.
  • Ítarlegt viðtal við eiganda og framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins App Dynamic.
  • Miklir fjárhagslegir og knattspyrnulegir hagsmunir verða undir er íslenska karlalandsliðið leikur umspilsleiki fyrir EM 2020 í mars á næsta ári.
  • Stefnt er á að nýtt talnaspil ætlað börnum komi út fyrir jól.
  • Nýr dagskrárstjóri HönnunarMars er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs.