Hlutabréf Carlsberg hækkuðu um rúmlega 15% í dag eftir að félagið birti uppgjör 2. ársfjórðungs.

Hagnaður á fjórðungnum nam 1,4 milljörðum danskra króna (23,4 milljarðar íslenskra króna) sem er um 22% meiri hagnaður en meðalspá greiningaraðila gerði ráð fyrir og 37% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Carlsberg tók yfir hluta af starfsemi Scottish & Newcastle og virðist sú yfirtaka hafa gengið framar væntingum, en með henni komst Carlsberg yfir stærsta brugghús Rússlands. Vöxtur félagsins er mikill í Austur-Evrópu, en sala þar tvöfaldaðist.

Vel gekk að koma kostnaðarverðshækkunum út í verðlag, en þrátt fyrir verðhækkun tókst Carlsberg að auka markaðshlutdeild sína á flestum markaðssvæðum.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.