*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 27. desember 2007 18:20

?Góður leikur hjá Glitni?

Ritstjórn

“Góður leikur hjá Glitni,” segir greiningardeild Landsbankans um sölu bankans á 12% hlut í Glitni Property Holding (GPH) til Bjarna Ármanssonar, fyrrum forstjóra bankans.

Ekki er þó verið að vísa til þess að Bjarni hafi keypt köttinn í sekknum, heldur að þar sem eignarhlutur Glitnis í GPH fer niður fyrir 50% við þessa sölu í 48,8%, og verður nú flokkað sem hlutdeildarfélag en ekki dótturfélag, líkt og fyrir söluna.

Við þessa breytingu nær Glitnir að innleysa 2,5 milljarða króna í hagnað til viðbótar við söluhagnað upp á 300 milljónir króna.

"Þar er annars vegar um að ræða frestaðan hagnað upp á 1,5 milljarða króna sem Glitnir gat ekki bókfært við söluna í september, þar sem GPH var hluti af samstæðu bankans. Hins vegar er um að ræða einn milljarð króna óinnleystan hagnað vegna hækkunar á virði þess eignarhlutar sem Glitnir heldur eftir í GPH," segir greiningardeildin.

Þessi sala hefur mikil áhrif á eiginfjárhlutfall Glitnis, að sögn greiningardeildarinnar.  "Salan á GPH færir Glitni ekki eingöngu um 2,8 milljarða króna hagnað heldur lækkar einnig bókfærð viðskiptavild sem tengist GPH.

Það verður að teljast mjög líklegt að stór hluti af heildarvirði GPH hafi verið viðskiptavild sem hverfur nú úr efnahagsreikningi Glitnis," segir greiningardeildin.

Glitnir Property Holding var stofnað fyrr á árinu utan um Union Gruppen og fjárfestingu í sænska fasteignafélaginu Leimdörfer. Í september síðastliðnum seldi Glitnir um 6% hlut í GPH til Frank O. Reite, fyrrum framkvæmdastjóra hjá Glitni, að því er fram kemur hjá greiningardeildinni.

Samkomulagið um kaupin er háð samþykki stjórnar GPH og annarra hluthafa.