Áhugi erlendra greiningaraðila og fjölmiðla á íslensku efnhags- og viðskiptalífi er langt frá því að vera í rénum en auk franska bankans Societe Generale hafa matsfyrirtækið Moody's og fjárfestingabankarnir Credit Suisse og HSBC nýlega sent frá sér greiningar um efnhagshorfur og uppgjör bankanna sem flestar hafa verið á mun jákvæðari nótum en áður einkenndi umfjöllun erlendra greiningaraðila. Þá hefur álag á skuldatryggingum bankanna dregist saman í kjölfar sterkra uppgjöra og jákvæðari umfjöllunar og hefur álagið dregist saman um tíu punkta hjá öllum bönkunum frá því að uppgjör bankanna voru kynnt í lok júlí og byrjun ágúst.

Bjarni Ármannsson forstjóri Glitnis segir að það sé ekki nóg að sýna fram á góða rekstrarreikninga heldur séu kynningarstarfið og samskipti við alþjóðlega fjölmiðla og greiningaraðila ekki síður mikilvæg. "Það er alveg áreiðanlegt að með vaxandi hópi fjárfesta og vaxandi alþjóðlegum umsvifum er kynningar- og upplýsingastarf lykilatriði í okkar rekstri." Bjarni segir að þrátt fyrir jákvæðari umfjöllun nú sé of snemmt að fagna sigri. "Við hjá Glitni höfum tekið umfjöllun og gagnrýni erlendra aðila af mikilli alvöru frá upphafi," segir hann.

Guðni Aðalsteinsson framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá Kaupþingi banka segir að hræðslan sem var áberandi meðal greiningaraðila fyrr á árinu, þess efnis að bönkunum tækist ekki að endurfjármagna sig í tæki tíð og að greiðslufall yrði, sé nú á bak og burt enda sýni góð afkoma bankanna að þessar áhyggjur hafi ekki verið á rökum reistar.

Guðjón Rúnarsson framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja sagði í samtali við Viðskiptablaðið að sterk uppgjör bankanna fyrir fyrstu sex mánuði ársins væru til vitnis um góða stöðu bankanna, þrátt fyrir þann mikla ólgusjó sem hefði gengið yfir undanfarna mánuði hvað varðar neikvæða erlenda umfjöllun. "Bankarnir hafa brugðist við umfjölluninni með hárréttum hætti og eru nú reynslunni ríkari," segir Guðjón.

(sjá frekari umfjöllun í Viðskiptablaðinu í dag)