Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, segir viðræður félagsins við samninganefnd ríkisins ganga vel og að góður vilji sé beggja vegna borðs til að ná niðurstöðu hið fyrsta.

Ljóst sé þó að viðræðurnar muni taka heldur lengri tíma en menn ætluðu í fyrstu, enda séu samningar sem þessir ekki hristir fram úr erminni á mjög skömmum tíma.

Aðspurður hvort það sé frekar eitt atriði en annað sem viðræðurnar strandi á segir Ögmundur að rætt sé um lengd samnings, innihald samnings hvað kaupið varðar og ýmislegt sem snýr að réttindum.

Allt fléttist þetta saman og erfitt sé að greina eitt ákveðið atriði sem sé öðrum mikilvægari.

„Menn horfa þó auðvitað til þess að þeir hafa þungar áhyggjur af umönnunarstofnunum, sem hafa verið fjársveltar. Það hefur komið niður á umönnunarstéttunum og það vilja menn leiðrétta með auknu fjármagni til þessara stétta. Við finnum fyrir vilja af hálfu ríkisins til að skoða þessi mál af alvöru,“ sagði Ögmundur.

Ögmundur segir að þrátt fyrir að BSRB hafa talað fyrir skammtímasamningi til eins árs í upphafi hafi samtökin opnað á að lengja hann ef aðrir þættir samningsins verði ásættanlegir. Hann vildi ekki segja til um hvenær þess sé að vænta að samningar náist, en taldi að BSRB og samninganefnd ríkisins myndu „ræðast við í nokkra daga í viðbót.“