Smásala í Bandaríkjunum jókst um 1,4% í maímánuði, eftir að hafa dregist saman um 0,1% í aprílmánuði. Þetta kom fram í tölum sem viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna birti í gær. Þessi aukning var nokkuð umfram væntingar greiningaraðila, en hagfræðingar höfðu að meðaltali spáð því að smásala myndi aukast um 0,7%. Ekki hefur verið jafn mikill vöxtur í smásölu síðan í janúar á þessu ári, sem gefur tilefni til bjartsýni um að hjöðnun á fasteignamarkaði og hækkandi eldneytisverð muni ekki hafa veruleg áhrif á smásölu þar í landi.