*

föstudagur, 14. maí 2021
Innlent 3. maí 2021 16:27

GR hagnaðist um 321 milljón

Hagnaður Gagnaveitu Reykjavíkur dróst lítillega saman frá fyrra ári. Netumferð jókst gífurlega á faraldurstímum.

Ritstjórn
Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.
Aðsend mynd

Gagnaveita Reykjavíkur (GR), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, skilaði 321 milljóna króna hagnaði á síðasta ári, en til samanburðar hagnaðist félagið um 359 milljónir króna árið 2019. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að meginástæða jákvæðrar afkomu sé fjölgun viðskiptavina á heimilis- og fyrirtækjamarkaði undanfarin ár í kjölfar ljósleiðaravæðingar GR.

Rekstrartekjur GR námu 3,1 milljarði króna og rekstrargjöld 948 milljónum. EBITDA nam tæplega 2,2 milljörðum króna og rekstrarhagnaður 1,1 milljarði.

„Nú vinnur GR að því að tengja heimili í Reykjanesbæ í samstarfsverkefni með Mílu sem hefur gengið vel. Á síðasta ári tengdust um 2.600 heimili í Reykjanesbæ og Árborg við ljósleiðarann og munu enn fleiri heimili í Reykjanesbæ tengjast í ár,“ segir í fréttatilkynningu.

Nú geti um 110.000 heimili og fyrirtæki tengst ljósleiðara GR og eigi kost á eitt gíg netsambandi, eða um 75% heimila á landinu. 

„Við höfum séð mikilvægi þess að hafa aðgang að öruggu og stöðugu háhraðaneti í þessu skrítna ástandi sem við höfum  búið við í skugga veirunnar,“ segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri GR, í fréttatilkynningu. „Ljósleiðarinn hefur gegnt lykilhlutverki í að halda samfélaginu gangandi á meðan fólk hefur unnið að heiman og á meðan samkomutakmarkanir hafa verið í gildi. Það er ótrúlegt að sjá hvernig Íslendingar hafa aðlagast að breyttum tímum og fært meira og meira traust á netinnviði.“ 

Í tilkynningunni segir jafnframt að netumferð hafi aukist gríðarlega eftir að samkomutakmarkanir tóku gildi. Mátt hafi sjá allt að 100% aukningu í fyrstu bylgju 2020. Innviðir GR hafi verið í stakk búnir fyrir þessa umferð og kerfið haldist stöðugt þrátt fyrir aukið álag.