Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) skilaði 359 milljóna króna hagnaði á síðasta ári sem var aukning um 87% frá árinu 2018 þegar hann nam 192 milljónum króna.

Meginástæða jákvæðrar afkomu er fjölgun viðskiptavina á heimilis- og fyrirtækjamarkaði undanfarin ár í kjölfar ljósleiðaravæðingar GR að því er segir í tilkynningu félagsins sem er í eigu Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar.

Í samræmi við það jukust tekjur félagsins milli ára um 18%, úr tæplega 2,7 milljörðum króna í ríflega 3,1 milljarð króna, meðan rekstrargjöldin jukust um 13%, úr 900 milljónum króna í rétt rúmlega milljarð króna. Ekki kemur fram hversu mikið launakostnaðurinn jókst þar af, né heldur breytingar á eigna og skuldastöðu félagsins.

EBITDA félagsins jókst um 20,7%, úr tæplega 1,8 milljörðum króna í rétt rúmlega 2,1 milljarð króna, meðan Rekstrarhagnaðurinn (EBIT) jókst um 26% á árinu, úr 970 milljónum í rúmlega 1,2 milljarða.

Ísland í fyrsta sæti

„Þessi árangur er í samræmi við áætlanir okkar en Ísland er í fyrsta sæti í nýtingu ljósleiðara skv. skýrslu Idate og hefur verið á meðal fremstu þjóða í hraða fjarskiptasambanda um árabil,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri GR.

„Markmið stjórnvalda um ljósleiðaravæðingu alls landsins er mjög mikilvægt og munum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar svo það náist. Það er mikilvæg forsenda samkeppnishæfni landsins, atvinnulífs og íbúa sem okkur ber að gæta að.“

Þrír fjórðu heimila landsins með aðgang

Nokkuð hefur dregið úr fjárfestingum félagsins undanfarin ár og framtíðarfjárfestingar GR við uppbyggingu ljósleiðarans munu einkum koma til vegna snjallvæðingar og aukinna krafna um háhraðatengingar.

Áfram verður unnið að ljósleiðaravæðingu í arðbærum verkefnum að því er segir í tilkynningu félagsins. Nú geta um 75% heimila á landinu tengst ljósleiðara GR og átt kost á eitt gíg netsambandi.

Ljósleiðarinn er opið grunnnet fjarskipta sem fjarskiptafyrirtæki á samkeppnismarkaði nýta til að bjóða þjónustu sína. Ljósleiðarinn er í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur, sem er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrirtækin sem bjóða þjónustu um Ljósleiðarann í dag eru Vodafone, Nova, Hringdu og Hringiðan. Öllum sem tengd eru Ljósleiðaranum býðst tengihraði upp á eitt gígabit, eða 1.000 megabit á sekúndu, hvort sem er við upphal eða niðurhal.