Singapúrska heimsendingarþjónustan Grab er í viðræðum um að fara á markað í gegnum öfugan samruna við SPAC (Special Purpose Acquisition Companies) félagið Altimeter Capital Management LP. Virði Grab er metið á 35-40 milljarða dala í samningnum sem yrði því sá langstærsti af þessum toga til þessa. WSJ greinir frá.

Hluti af samningnum felur í sér 3-4 milljarða dala fjármögnunarlotu, sem kallast PIPE (private investment in public equity) og fylgir yfirleitt SPAC samrunum.

Viðræðurnar standa þó enn yfir og Grab gæti því hætt við og snúið sér aftur að fyrri áætlunum um að halda hefðbundið frumútboð í Bandaríkjunum í ár.

Stærsti SPAC samningur fram að þessu var 16 milljarða dala samruni veðlánafyrirtækisins United Wholesale Mortgage og Gores Holdings IV Inc. í september síðastliðnum. SPAC félög, einnig kölluð „opin tékka“ (e. blank cheque) félög, hafa verið í mikilli sókn undanfarið en eini tilgangur þeirra er safna fjármagni og finna einkafyrirtæki til að fara með á markað. Í ár hafa SPAC félög safnað meira en 70 milljörðum dala.