Töfrafélagið ehf., félag sem stofnað er um rekstur á graðhestinum Töfra frá Kjartansstöðum, eins og það er orðað í ársreikningi félagsins, skilaði 171.136 króna hagnaði í fyrra, en velta félagsins nam 300.000 krónum.

Árið 2011 nam veltan undan Töfra 600.000 krónum, en þá varð 84.436 króna tap á rekstri félagsins. Munurinn á afkomu milli ára fólst í því að skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var 678.700 krónur árið 2011, en 78.888 krónur í fyrra.

Eignir félagsins námu 1.452.849 krónum um síðustu áramót og þar af er Töfri sjálfur metinn á hálfa milljón króna. Skuldir félagsins námu aðeins 553.934 krónum og eigið fé því jákvætt um 898.915 krónur.