Þeir Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson og Jón Eðvald Vignisson, tveir stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins CLARA munu fá um 150 milljónir króna í sinn hlut við söluna á fyrirtækinu til bandaríska hugbúnaðarfyrirtækisins Jive Software. Eins og fram kom í fréttum í morgun nemur kaupverðið um milljarði króna, en Gunnar Hólmsteinn á 16% hlut í CLARA, samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2011. Jón Eðvald á 14% hlut í fyrirtækinu.

Stærsti hluthafi fyrirtækisins er hins vegar Auro Investments partners og er Bala Kamallakhara stjórnarformaður þess fyrirtækis og CLARA. Auro á 34% hlut í CLARA og fær því um 340 milljónir króna í sinn hlut. Aðrir hluthafar eiga eðli málsins samkvæmt samtals 36% og fá því um 360 milljónir króna við söluna.

Áretting: „Vegna þess, sem fram kemur um kaupverð í fréttinni vill Jive software árétta: Mikilvægt er að benda á að um er að ræða samning um greiðslu í bæði reiðufé og hlutabréfum. Nákvæmt verð kemur reyndar ekki fram í fréttinni heldur einungis áætlað verð í íslenskum krónum. En eina nákvæma talan sem gefin var upp var að kaupverð vegna viðskiptanna með CLARA og StreamOnce (sem Jive keypti á sama tíma og CLARA) var innt af hendi með 11,3 milljónum dala í reiðufé og um það bil 533.000 hlutum.“