„Launafólk hefur engan ávinning af aukinni verðbólgu og auknu atvinnuleysi,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann gerði grein fyrir þeirri ákvörðun peningastefnustefndar að halda stýrivöxtum óbreyttum í 6%. Már sagði eins og á fyrri fundum að hlutverk Seðlabankans sé að halda verðbólgu sem næst markmiði bankans. Verði launahækkanir umfram spár þá séu meiri líkur en minni á að verðbólga aukist og muni stýrivextir bankans fara sömu leið. Hann sagði jafnframt líkur á að atvinnuleysi muni aukast verði launahækkanir umfram það sem lagt hafi verið upp með.

„Það er fyrir því löng söguleg reynsla að reynist launahækkanir töluvert umfram framleiðniaukningu þá mun það að lokum ekki skila sér í raunávinningi,“ sagði Már og ítrekaði að ef raunlaunaaukning er meiri en aukning framleiðslu per mann og hún nær fram að ganga þá getur hún komið fram í auknu atvinnuleysi.