Frá því að hinn svokallaði konungur poppsins Michael Jackson lést árið 2009 hefur dánarbú hans hagnast um því sem nemur heilum milljarði dala , eða um 125 milljarða íslenskra króna.

Dánarbú Jackson græddi einhverjar 100 milljónir dala eða 12,8 milljarða króna á þessu ári og er hann því sú sú stjarna sem þénar mest þrátt fyrir að hafa yfirgefið þessa jarðlegu tilvist.

Næstur á listanum er svo Elvis Presley með 50 milljónir dala á ári eða 6,4 milljarða íslenskra króna, en sá hagnaður kemur einna helst inn gegnum miðasölu á Graceland safninu.

Sá þriðji tekjuhæsti er Charles Schulz, skapari teiknimyndanna sígildu um Charlie Brown og Snoopy, Peanuts. Hann þénar einhverjar 40 milljónir dala eða 5,12 milljarða króna árlega. Nú í nóvember kemur út kvikmynd um Peanuts-gengið í þrívídd, og er búist við að hagnaður muni aukast talsvert í kjölfarið.

Fleiri látnar stjörnur á borð við Bob Marley (2,68 milljarðar króna), Elizabeth Taylor (2,56 milljarðar króna) og Albert Einstein (1,4 milljarðar króna) raka inn seðlum þrátt fyrir að hafa sungið sitt síðasta fyrir löngu síðan.