Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir Fjármála- og efnahagsráðuneytið voru endurheimtur ríkissjóðs vegna inngripa í bankakerfið við hrun meiri en sem nemur beinum kostnaði, eða um 55-76 milljörðum króna meiri miðað við núverandi gengi.

Næst mesta tap á eftir Írlandi

Samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gert var árið 2012 nam beinn heildarkostnaður ríkissjóðs vegna falls fjármálastofnana um 43% af vergri landsframleiðslu á árunum 2008-2011.

Miðast það við að ekki sé tekið tillit til verðmætis yfirtekinna eigna, en þetta var næst mesta hlutfall landsframleiðslu allra landa OECD á eftir Írlandi. Ef tekið er tillit til verðmætis eignanna var hlutfallið 19,2%.

Kostnaðurinn endurheimtur og gott betur

Skýrslan sem er eftir dr. Ásgeir Jónsson og dr. Hersir Sigurgeirsson segir að þessi kostnaður hafi nú verið endurheimtur og gott betur á þeim tíma sem síðan er liðinn, en endurheimturnar hafi að mestu fallið á þeim tíma.

Ef miðað er við gengi ársins 2015 er ábatinn um 76 milljarðar en ef miðað er við sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers árs, nemur ábatinn 2,6% sem jafngildir um 57 milljörðum að núvirði ársins 2015. En ef miðað er við verðlag hvers árs er ábatinn 286 milljarðar króna

Mögulegur ábati af gjaldeyrisútboði ekki með

Mikilvæg forsenda í matinu er að unnt verði að selja eignarhluti ríkisins í viðskiptabönkunum á næstunni á gengi sem svarar til 100% af bókfærðu virði eigin fjár bankanna.

Jafnframt er ekki tekið tillit til mögulegs ábata Seðlabankans vegna gjaldeyrisútboðsins sem verður 16. júní.