Anna Kristín Kristjánsdóttir, markaðsstjóri Vodafone, hagnaðist um 740 þúsund krónur með kaupum sínum á hlutabréfum fjarskiptafyrirtækisins. Fram kemur í tilkynningu frá Vodafone til Fjármálaeftirlitsins að Anna Kristín keypti 740 þúsund hluti í Vodafone á genginu 27 krónur á hluta og gengu viðskiptin í gegn klukkan 9:30 í morgun. Kaupverðið nam rétt tæpum 20 milljónum króna.

Gengi hlutabréfa Vodafone hrundi um 12% á mánudag fyrir viku og fór það lægst í rétt rúmar 26 krónur á hlut. Það hefur jafnað sig nokkuð síðan þá.

Eins og VB.is greindi frá fyrr í dag hefur gengi hlutabréfa Vodafone hækkað um rúm 4,6% í talsverðum viðskiptum í dag og er það nú komð í 28 krónur á hlut. Miðað við það er markaðsvirði hlutabréfanna sem framkvæmdastjórinn keypti í morgun komið í rétt rúmar 20,7 milljónir króna.

Mismunurinn, hagnaðurinn af viðskiptunum, jafngildir 740 þúsund krónum sem reyndar er bundinn í hlutabréfaeign Önnu Kristínar í Vodafone.