Theo Hoen, forstjóri Marel, nýtti í dag rétt sinn til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu. Hann keypti tvær milljónir hlutabréfa á genginu 85,83 krónur á hlut og seldi aftur á genginu 133 krónur á hlut. Miðað við þetta nam kaupverðið rúmum 171,6 milljónum króna en söluandvirðið 266 milljónum króna. Mismunurinn nemur 54,3 milljónum króna.

Gengi hlutabréfa Marel lækkaði um 1,47% í Kauphöllinni í dag í viðskiptum upp á 326 milljónir króna. Gengi hlutabréfanna endaði í 134,5 krónum á hlut. Til samanburðar stóð það í 140,5 krónum á hlut um áramótin en fór hæst í rétt rúma 161 krónu í febrúar.

Fram kemur í tilkynningu frá Marel að Theo Hoen á 1,5 milljónir hluta í Marel. Markaðsverðmæti hlutanna nemur rétt rúmum 200 milljónum króna á gengi dagsins. Hann á kauprétt að 950 þúsund hlutum í Marel til viðbótar, að því er segir í tilkynningunni.