Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel, keypti í dag 87.500 hluti í Marel á genginu 83,78 krónur á hlut og seldi þá alla aftur, samkvæmt tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Kaupin voru í samræmi við kaupréttarsamninga sem hann hefur gert við fyrirtækið. Kaupverðið nam rétt rúmum 7,3 milljónum króna. Eftir kaupin seldi hann hlutina alla samdægurs á markaðsverðmæti, þ.e. 146,5 krónur á hlut, fyrir rétt rúmar 12,8 milljónir. Mismunurinn nam 5.488.000 krónum.

Fram kemur í tilkynningunni að Sigsteinn á kauprétt að 537.500 hlutum í Marel. Samkvæmt viðskiptunum í dag átti hann til skamms tíma tæplega 113.500 hluti í Marel. Eftir söluna á hann hins vegar eftir 25.997 hluti í félaginu. Gengi hlutabréfa Marel hefur lækkað um 0,68% það sem af er degi í Kauphöllinni í veltu upp á rúma 181 milljón krónur. Gengið stendur nú í 146,5 krónum á hlut. Miðað við það nemur hlutafjáreign Sigsteins í Marel nú 3,8 milljónum króna.

Samkvæmt síðasta ársuppgjöri Marel var Sigsteinn með 333.000 evrur í laun og hlunnindi í fyrra. Það gera rúmar 50 milljónir króna, að jafnaði um 4,2 milljónir króna í mánaðarlaun.