Töluverðar hækkanir hafa orðið á gengi hlutabréfa á aðalmarkaði kauphallar Nasdaq Iceland í morgun og hefur Úrvalsvísitalan hækkað um ein 1,59%.

Hlutfallsleg hækkun er mest á bréfum Haga, eða um 2,98%. Þá hefur gengi bréfa Reita hækkað um 2,94% og HB Granda um 2,90%.

Nú þegar er töluverð velta á hlutabréfamarkaði og klukkan rúmlega tíu í morgun var hún orðin rétt tæpur 1,3 milljarður króna. Mest er veltan með bréf Reita, eða 389 milljónir króna, en einnig er nokkur velta með bréf Icelandair Group og Haga.