Græn framtíð hefur samið við tryggingafélagið Mondux um endurnýtingu á smáraftækjum sem viðskiptavinir skila inn vegna tjóna. Fyrirtækið mun því sjá um endurnýtingu á öllum smáraftækjum Mondux eins og farsímum, spjaldtölvum, og fartölvum. Starfsemi Mondux er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og mun Græn framtíð þjónusta fyrirtækið í þeim löndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Samningurinn við Mondux er mikil viðurkenning fyrir Græna framtíð. Þetta er stórt skref fyrir jafn lítið fyrirtæki og sýnir að þau geta vel sótt á erlenda markaði þrátt fyrir harða samkeppni,“ segir Bjartmar Alexandersson framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar. Hann segir að félagið hafi farið sér hægt og unnið á smærri mörkuðum áður en samið var við Mondux. „Við höfum lagt áherslu á að læra af reynslunni fyrir stærri áskoranir. Félagið var með samninga við samstarfsaðila á Íslandi, Álandseyjum, Færeyjum og Nýfundnalandi áður en kom að samskiptum við Mondux. Það var því afar vel undirbúið til leiks þegar kom að því að ræða við Mondux og kynna þjónustuna.”