Grænt var yfir að litast í Kauphöllinni í dag, enda hækkaði gengi hlutabréfa 19 félaga af þeim 20 sem skráð eru á aðalmarkað. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,7% og stendur í 3.246,17 stigum, en heildarvelta viðskipta dagsins nam 4,3 milljörðum króna.

Gengi Iceland Seafood hækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 5,6% í 466 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Haga hækkaði næst mest, eða um 4% í 170 milljón króna viðskiptum.

Mest veltan var með hlutabréf Eimskips, en viðskipti með bréfin námu 820 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 3,3%. Um 730 milljón króna viðskipti voru með bréf Marel, og hækkaði gengi bréfa félagsins um 2%.

Miklar lækkanir höfðu verið í Kauphöllinni á mánudag og þriðjudag í þessari viku, en gengi allra skráðra félaga á aðalmarkaði lækkaði á mánudaginn og 17 af 20 félögum í gær, þriðjudag. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um ríflega 4% innan ársins 2022 og hefur þróun markaðarins haldist í hendur við þróunina erlendis.

Á First North hækkaði gengi bréfa Hampiðjunnar um 0,8% í 5 milljóna veltu. Flugfélagið Play hækkaði um 0,44% í 20 milljóna króna viðskiptum og Solid Clouds fór upp um 8,2% í 200 þúsund króna viðskiptum.