*

mánudagur, 6. apríl 2020
Erlent 15. febrúar 2020 19:01

Græn leið til ánauðar?

Mark Carney hefur verið ötull talsmaður alþjóðlegra aðgerða í loftlagsmálum. Hugmyndir hans hafa hlotið mikinn hljómgrunn en gagnrýnendur hafa þó líkt þeim sem grænni leið til ánauðar

Hörður Guðmundsson
epa

Mark Carney, fráfarandi seðlabankastjóri Englandsbanka, hefur verið umsvifamikill í umræðunni um loftlagsmál. Álit hans hefur þótt svo þýðingarmikið að Sameinuðu Þjóðirnar skipuðu hann undir lok árs 2019 í hlutverk sérstaks sendifulltrúa loftlagsmála. Carney hefur einna helst fjallað um hlutverk fjármálageirans í loftlagsaðgerðum og hefur þökk sé stöðu hans og þekkingu hlotið áheyrn fyrirtækja og stofnana. Ekki eru allir jafn sannfærðir um ágæti hans. Gagnrýnendur hafa jafnvel líkt herför Carney sem grænni leið til ánauðar, en það er tilvísun í hugmyndir Hayeks um að áætlunarbúskapur leiði að lokum til einræðis.

Harmleikur almenninganna

Carney vakti sérstaklega mikla athygli árið 2015, þegar hann flutti ræðu fyrir breska tryggingarisann Lloyd’s. Snemma í ræðu sinni benti hann á að tryggingageirinn væri byrjaður að fást við afleiðingar manngerðra loftlagsáhrifa. Máli sínu til stuðnings benti hann meðal annars á að frá níunda áratug síðustu aldar væru tjón sem mætti rekja til veðurfarslegra þátta búin að þrefaldast. En jafnframt væru líkur á stærri hamförum sífellt meiri, sem myndu ekki bara valda eignatjóni, heldur væri vatns- og fæðuöryggi ýmissa landa ógnað, sem gæti leitt af sér óstöðugleika í stjórnmálum og ófyrirséða fólksflutninga

Í ljósi fyrrnefndra áhættuþátta, velti Carney því fyrir sér hvers vegna aðgerðir væru ekki meiri á þessu sviði. Að hans sögn er það vegna þess að um klassískan harmleik almenninganna sé að ræða. Núverandi kynslóðir hafa gengið á umhverfið með ósjálfbærum hætti, ekki tekið tillit til heildarhagsmuna samfélagsins og fyrir vikið bitna afleiðingar þeirra gjörða á komandi kynslóðum. Þótt tíminn sé að verða knappur, sé enn til staðar viðbragðsgluggi.

Fjölþættar aðgerðir

En hvernig þarf að mati Carney að nýta þennan viðbragðsglugga? Af ræðum og skrifum að dæma telur hann heilt yfir mikilvægt að eignarréttur sé vel skilgreindur og að hið opinbera skapi heildstæða lagalega umgjörð um loftlagsmál, sem virki bæði hvetjandi og refsandi í ákveðnum tilvikum. En hann er einnig harður á því að einkageirinn þurfi að taka þátt í þessari mótun. Þar leggur hann mikla áherslu á fjármálageirann.

Í ræðu sem hann hélt á vegum Sameinuðu Þjóðanna á síðari hluta 2019, taldi hann upp nokkra þætti. Í fyrsta lagi taldi hann mikilvægt að settir yrðu staðlar fyrir upplýsingagjöf og að fyrirtæki myndu gera upp áhrif á umhverfið, auk þess sem þau myndu greina frá umhverfislegum áhættuþáttum. Í öðru lagi lagði hann áherslu á áhættustýringu. Allt fjármálakerfið þyrfti að hans sögn að öðlast betri skilning á áhættu sem rekja má til umhverfismála.

Í þriðja lagi þyrftu fjárfestar að átta sig á því að sjálfbærar fjárfestingar væru sennilega þær fjárfestingar sem gætu skapað mesta ávöxtun, þar sem ávinningur þeirra væri svo umfangsmikill fyrir allt mannkynið. Þessar fjárfestingar þyrftu auk þess að verða sjálfsagðar og öllum aðgengilegar. Carney lagði jafnframt áherslu á að yfirvöld myndu alþjóðlega samtvinna markmið í skattlagningu til þess að stuðla að sameiginlegum loftlagsmarkmiðum.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér