Eftir að Kauphöllin opnaði græn í morgunsárið seig á ógæfuhliðina og við lokun var líkt og undanfarið rautt yfir að litast. Gengi sextán félaga af þeim tuttugu sem skráð eru á aðalmarkað lækkaði í viðskiptum dagsins en gengi hinna fjóru félaganna hækkaði. Úrvalsvísitalan lækkaði fyrir vikið um 1,65% og stendur nú í 3.176,59 stigum. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 6,3 milljörðum króna.

Gengi bréfa Eimskips hækkaði mest, eða um 2,91% í 299 milljóna króna veltu. Stendur gengi bréfa félagsins í kjölfarið í 424 krónum á hlut. Næst mest hækkaði gengi Skeljungs, um 2,42% í einungis 17 milljóna króna veltu. Stendur gengi bréfa félagsins nú í 12,7 krónum á hlut.

Gengi hlutabréfa Kviku banka lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,48% í 559 milljóna króna veltu. Nemur gengi hvers hlutar í bankanum nú 22,2 krónum. Næst mest lækkaði gengi Iceland Seafood, um 2,92% í 53 milljóna króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins stendur fyrir vikið í 16,6 krónum á hlut.