Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,9% í 4,2 milljarða króna veltu í dag en vísitalan hafi fyrir daginn í dag lækkað um ríflega 8% á nærri tveggja vikna tímabili. Fjórtán af tuttugu félögum aðalmarkaðar Kauphallarinnar voru græn í viðskiptum dagsins.

Hlutabréfaverð Kviku banka hækkaði mest allra félaga eða um 3,1% í 453 milljóna viðskiptum og stendur nú í 23,1 krónu á hlut. Fyrir daginn hafði gengi Kviku lækkaði um tæplega 11% á tveimur vikum, eða frá því að gengið náði sínum hæstu hæðum í 25,2 krónum þann 9. september síðastliðinn.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,2% í 1,4 milljarða viðskiptum. Hlutabréfaverð Arion stendur nú í 165,5 krónum á hlut en gengi bankans náði methæðum í 175,5 krónum fyrr í mánuðinum. Gengi Arion hefur engu að síður hækkað um 77% í ár.

Hagar og Reginn hækkuðu bæði um tæplega 1,6% í dag. Fyrirtækin undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um kaup á hlut í fasteignaþróunarfélaginu Klasi .

Á First north markaðnum hækkaði hlutabréfaverð Play um nærri 3% í 68 milljóna veltu. Hlutabréfaverð flugfélagsins stendur nú í 21,2 krónum á hlut, um sem er 6% hærra gengi en í útboði félagsins í sumar.