Grænfriðungar í Bretlandi styðja hugmyndir um lagningu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands. Þetta segir Doug Parr, aðalvísindamaður og forstöðumaður stefnumótunar hjá Grænfriðungum í Bretlandi, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við teljum loftslagsbreytingar vera einhverja mestu ógnina við fjölbreytt lífríki á jörðinni og við samfé- lag manna. Þar af leiðandi er aðkallandi að við reynum að nota hreina orkugjafa. Það að tengja saman lönd er almennt góð leið til þess að tryggja að endurnýjanlegir orkugjafar af ýmsum toga séu nýttir á hagkvæmari hátt,“ segir Parr.

Hafa ekki áhyggjur af hvölunum

Doug Parr, aðalvísindamaður og forstöðumaður stefnumótunar hjá Grænfriðungum í Bretlandi.
Doug Parr, aðalvísindamaður og forstöðumaður stefnumótunar hjá Grænfriðungum í Bretlandi.
© Steps Centre (Steps Centre)
Parr segir að áhyggjur þeirra sem telji að sæstrengur myndi hafa neikvæð áhrif á lífríki hvala skuli ekki hundsuð. „Ég held við þurfum bara að líta til þeirra sönnunargagna sem eru til um það,“ segir hann, en bætir við: „Ég þekki sjálfur ekki til þess að það séu traustar sannanir fyrir því að sæstrengur hafi áhrif á hvali. Ég er ekki að segja að það geti ekki verið, en mér er ekki kunnugt um það. Það má segja að almennt hafa ekki verið uppi áhyggjur af því í Norðursjó, eins og til dæmis á milli Bretlands og Noregs. Almennt hafa verið meiri áhyggjur af hávaða frá vindmyllugörðum hvað þetta varðar, en ekki af áhrifum rafsegulsviðs á hvali,“ segir Doug Parr.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .