Það voru um 27 þúsund farþegar á ferðinni með okkur milli Íslands og Grænlands 2010, en á síðasta ári var fjöldinn kominn upp i um 30 þúsund. Þetta er aukning upp á 10%, sem við erum mjög ánægð með,“ sagði Árni Gunnarsson forstjóri Flugfélags Íslands í samtali við Viðskiptablaðið.

Flugfélagið flýgur til fimm áfangastaða á Grænlandi: Nuuk, Kulusuk og Constable Point allt árið um kring, og til Narsarsuaq og Iluissat yfir sumarið. Árni segir að aðeins milli 5 og 10% af farþegunum séu Íslendingar. Yfirgnæfandi meirihluti eru útlendingar sem koma til Íslands og bæta Grænlandsferð við.

„Íslendingar fara í mismunandi erindagjörðum til Grænlands. Margir fara að skoða söguslóðir á Suður- Grænlandi, og fara til hreindýraveiða og stangveiða á sömu slóðum. Til höfuðborgarinnar Nuuk fara Íslendingar í ýmsum erindum sem tengjast menningu og stjórnsýslu, og til Iluissat, Kulusuk og Constable Point til að upplifa stórbrotna náttúru, hvort sem er á Gunnbjörnsfjalli í „extreme“ útiveru eða að skoða Diskoflóann sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Stórbrotin náttúran er það sem helst heillar við Grænland,“ segir Árni.