Orbicon Arctic, sem er grænlensk verkfræðistofa, opnar þann 10. apríl starfsstöð í Reykjavík.

„Við byrjuðum með tvo starfsmenn í Nuuk fyrir sex árum og nú erum við brátt tuttugu,“ segir Michael Mørch, framkvæmdastjóri Orbicon Arctic, en rétt eins og á Grænlandi fyrir sex árum byrjar skrifstofan í Reykjavík með tvo menn sem munu starfa undir stjórn Michaels Mørch í Nuuk.

„Sú sértæka þekking sem við höfum aflað okkur á sviði bygginga, veitukerfa og hafna- og vegagerðar getur vel nýst á Íslandi.“

Vilja skapa sterk tengsl milli landanna

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu, en þar segir að starfsemin gangi vel á Grænlandi og nú hyggst fyrirtækið nýta þekkingu sína á öðrum svæðum við Norður-Atlantshaf og þekkingu og reynslu frá Íslandi til að bæta mannvirki á Grænlandi og á öðrum Norður-Atlantshafssvæðum.

„Það er ekki nýtt fyrir okkur að vinna með íslenskum ráðgjöfum og verktökum. Sú samvinna hefur sýnt okkur að menn vinna og leysa verkefni á mjög líkan hátt í þessum tveimur löndum,“ segir Michael Mørch.

„Ég er stoltur af því að við leysum öll verkefni okkar staðbundið. Við viljum stuðla að því að þekking byggist upp á hverjum stað fyrir sig.

Rétt eins og við höfum gert á Grænlandi, viljum við einnig byggja upp þekkingarfyrirtæki á Íslandi og skapa sterk tengsl milli okkar fólks á Grænlandi og á Íslandi svo það geti lært hvert af öðru og orðið enn þá betra í því sem það gerir.“

Allt frá leikskólum í stórskipahafnir

Í Nuuk vinnur Orbicon Arctic meðal annars að byggingu Sikuki Nuuk-stórskipahafnarinnar, endurbyggingu á Katuaq-menningarhúsi og ýmsum öðrum verkefnum á sviði innviða og bygginga.

Þar fyrir utan hefur fyrirtækið hannað leikskóla á Norður-Grænlandi og unnið að ýmsum vatns- og fráveitukerfum á Norður-, Suður- og Austur-Grænlandi.