Hlutabréfaverð í Icelandair hækkaði um 3,28% í 242 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í morgun bárust fréttir af því að WOW air hyggðist ráðast í 6 til 12 milljarða skuldabréfafjármögnun og stefnir fyrirtækið að því að klára umrædda fjármögnun í ágúst.

Verð á bréfum í Origo hækkaði einnig í Kauphöllinni í dag eða um 3,00% í 80 milljóna króna viðskiptum. Í morgun var birt tilkynning í Kauphöllinni þess efnis að stefnt sé að sölu á þriðjungshlut í Tempo til alþjóðlega fjárfestingasjóðsins HPE.

Verð á hlutabréfum í Högum hækkaði einnig um 1,07% í 138 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. N1 hækkaði jafnframt um 1,48% í 114 milljóna króna viðskiptum í dag.

Marel hækkaði um 0,14% í 2.126 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Í dag birtist frétt um að Capacent hafi hækkað verðmat sitt á Marel um 10 milljarða frá síðasta mati sem gefið var út í febrúar. Metur ráðgjafarfyrirtækið markaðsvirði Marels nú á 328 milljarða króna.

Tvö félög lækkuðu í Kauphöllinni í dag en það voru tryggingafélagið VÍS og fasteignafyrirtækið Reginn. VÍS lækkaði um 0,27% í 24 milljóna króna viðskiptum en Reginn lækkaði um 0,77% í 58 milljóna króna viðskiptum.