Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,82%, upp í 1.985,95 stig en heildarviðskipti dagsins námu 2,9 milljörðum króna.

Það má segja að nýlokinn viðskiptadagur hafi verið grænn, en af þeim 19 félögum sem skráð eru í kauphöll Nasdaq hækkaði gengi 14 félaga í viðskiptum dagsins.

Eimskip hækkaði mest, eða um 4,92% í 157 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin upp í 192,00 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 3,36%, upp í 9,23 krónur, í 129 milljóna króna viðskiptum.

Mestu viðskiptin voru með bréf Símans og nam heildarvelta viðskipta dagsins með bréfin 702 milljónum króna. Gengi bréfanna hækkaði um 1,28% í viðskiptum dagsins.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Skeljungs, eða 1,68% í 84 milljóna króna viðskiptum og nemur gengi þeirra nú 8,20 krónum. Þá lækkaði gengi hlutabréfa í Arion banka næst mest eða um 1,05% í 231 milljóna króna viðskiptum og nemur gengi þeirra nú 75,30 krónum.