*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Innlent 16. júní 2020 16:02

Grænn dagur í Kauphöllinni

Bréf Origo hafa hækkað um 46% frá því í mars en gengi þeirra hefur ekki verið hærra síðan í október 2017.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 3,07% í dag en 16 af 20 félögum Kauphallarinnar hækkuðu um 1% eða meira í 6,1 milljarða króna veltu. Hins vegar má rekja 4,1 milljarð króna til uppgjörs yfirtökutilboðs Heimavalla sem tilkynnt var í morgun.

Bréf Marels hækkuðu mest eða um 3,85% í 250 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 675 krónur á hlut. Um 201 milljón króna velta var með bréf Arion banka sem hækkuðu um 3,49%.

Tryggingafélögin þrjú í Kauphöllinni hækkuðu öll um meira en 2%. Vís hækkaði um 3,71% í 281 milljón króna viðskiptum, Sjóvá um 2,36% í 47 milljóna króna viðskiptum og TM um 2,15% í 226 milljóna króna veltu. 

Origo hækkaði um 3,39% í 82 milljóna króna viðskiptum og standa bréf þess nú í 28,95 krónum á hlut. Bréfin hafa hækkað um 46% frá því 17. mars síðastliðnum. Gengi bréfanna hefur ekki verið hærra síðan í október 2017.

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims í dag. Krónan veiktist um 0,46% gagnvart evrunni, 0,74% gagnvart dollaranum og 0,87% gagnvart sterlingspundinu.

Stikkorð: Nasdaq VÍS Kauphöllin Origo