Gengi hlutabréfa Icelandair Group hækkaði um 1,87% í viðskiptum upp á rúma 121 milljóna krónur í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta hækkunin á hlutabréfamarkaði. Á eftir fylgdi gengi bréfa Marel, sem hækkaði um 1,38%, bréf Össurar hækkuðu um 1,27% og Haga um 0,56%. Þá hækkaði gengi bréfa færeyska olíuleitarfélagsins Atlantic Petroleum um 0,58%.

Gengi bréfa Haga snerti 18 krónur á hlut í dag og hafði það aldrei verið hærra. Bréfin enduðu í 17,95 krónum á hlut. Þá endaði gegni bréfa Icelandair Group í 5,99 krónum á hlut. Það hefur ekki verið hærra síðan vorið 2009.

Úrvalsvísitalan hækkaði í dagslok um 1,04% og endaði hún í 1.027 stigum.