*

föstudagur, 30. október 2020
Innlent 19. desember 2019 07:01

Grænn rafmagnssamningur fyrir gagnaver

Landsvirkjun og Reykjavík DC hafa undirritað samning um afhendingu grænnar raforku til nýs gagnavers við Korputorg.

Sveinn Ólafur Melsted
Fulltrúar samningsaðila eftir undirritun í höfuðstöðvum Landsvirkjunar.
Aðsend mynd

Landsvirkjun og Reykjavík DC, sem er nýtt hátæknigagnaver í Reykjavík í eigu Opinna Kerfa, Sýnar, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs, hafa undirritað grænan rafmagnssamning um afhendingu á allt að 12 MW til nýs gagnavers við Korputorg í Reykjavík. Stefnt er að því að gagnaverið hefji rekstur snemma á næsta ári. Reykjavík DC verður fjórði viðskiptavinur Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði. Í fréttatilkynningu vegna málsins segir að sérhæfing Reykjavíkur DC snúi að öryggis- og umhverfismálum. Gagnaverið nýti rafmagn úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum og uppfylli Tier3-staðal. Reykjavík DC muni bjóða sambærilega þjónustu við það sem best gerist í heiminum og fullnægja ströngustu kröfum. Þjónusta gagnaversins verði sniðin að þörfum innlendra og erlendra viðskiptavina sem kjósa gæði og öryggi.

Íslenskar æðstæður hentugar gagnaverum

Umræddur samningurinn verður vottaður sem grænn rafmagnssamningur (e. corporate green power purchase agreement) og með raforkusölunni fylgja upprunaábyrgðir sem staðfesta að orkan sé unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá segir í tilkynningu Landsvirkjunar að vaxandi fjöldi vottaðra grænna rafmagnssamninga stórra raforkukaupenda, svo sem leiðandi gagnaversfyrirtækja í Evrópu og Norður Ameríku, sé merki um vaxandi áherslu á loftslagsmál og sjálfbærni. Fyrirtæki sem séu meðvituð um hlutverk endurnýjanlegrar orku í baráttu við loftslagsbreytingar leggi í auknum mæli áherslu á að fá hana vottaða sem slíka og greiða fyrir það sérstaklega.

Mikil sóknarfæri séu í gagnaversiðnaði sem sé sá iðnaður í heiminum sem vaxi einna örast. Endurnýjanleg orka, samkeppnishæft verð í langtímasamningum, afhendingaröryggi og íslenskt veðurlag eigi þátt í að skapa afar hagstætt rekstrarumhverfi fyrir ört vaxandi gagnaversiðnað á Íslandi. Svalt og stöðugt loftslag dragi svo úr kostnaði við kælingu á tölvubúnaði sem hitni mikið við notkun. Loftkælingin komi í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því sé hagkvæmara og umhverfisvænna að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum.

Gagnaversiðnaðurinn í örum vexti

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, kveðst ánægð með samninginn við Reykjavík DC, enda sé gagnaversiðnaðurinn ein af þeim atvinnugreinum sem er í hvað örustum vexti á heimsvísu.  „Þetta er tíundi stórnotandinn sem kemur í viðskipti við Landsvirkjun, en slíkum viðskiptavinum hefur verið að fjölga á undanförnum árum. Fjölbreytni stórnotenda hefur einnig verið að aukast, sem er jákvætt fyrir Landsvirkjun og atvinnulífið í heild. Að baki Reykjavík DC standa innlendir aðilar með víðtæka reynslu og þekkingu á rekstri upplýsingatækni kerfa, fjarskipta, fasteigna og alþjóðaviðskipta."

Að sögn Stefaníu eru íslenskar aðstæður hentugar fyrir gagnaver. „Við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir því að reisa gagnaver hér á landi, bæði frá innlendum sem og erlendum aðilum. Allt umhverfið á Íslandi þarf hins vegar að vera móttækilegt fyrir þessari atvinnugrein og þar eru sóknarfæri. Það skiptir gagnaver miklu máli að afhendingaöryggi sé tryggt. Gagnaversfyrirtækin leita í auknum mæli í endurnýjanlega orku, m.a. vegna þrýstings frá viðskiptavinum, sem felur í sér tækifæri fyrir okkur. Með auknum gagnatengingum frá Íslandi þá eykst samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði enn meira," segir Stefanía.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér