Grænt var á flestum tölum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Velta dagsins nam alls tæpum 1,4 milljörðum króna.

Úrvalsvísitalan OMXI10 hækkaði um 1,72% í viðskiptum dagsins. Hástökkvari dagsins var Arion banki en gengi bréfa í bankanum hækkaði um rúm 5,6%. Arion var jafnframt það félag sem mest viðskipti voru með og skiptu bréf um hendur fyrir 455 milljónir króna.

Næstmest velta var með bréf í Festi, um 257 milljónir króna, og hækkaði félagið um 0,83%. Velta tveggja annarra félaga, Eik og Marel, var yfir 100 milljónum króna. Hækkaði fyrrnemda félagið um 2,19% og Marel um hálft prósent.

Næstmesta hækkun dagsins var hjá flugfélaginu Icelandair en það hækkaði um tæplega fjögur prósent í 12 milljón króna viðskiptum. Fjögur félög hækkuðu um á bilinu 2-3% en það voru Brim, Reitir, Sjóvá og áðurnefnt Eik. Skeljungur, Sýn og TM hækkuðu öll um á bilinu 1,6-1,9% en hækkun annarra félaga var minni.

Tvö félög lækkuðu í dag. Gengi Iceland Seafood lækkaði lítillega í 37 milljóna viðskiptum og þá lækkaði Síminn um 1,1% í 34 milljóna viðskiptum.