Grænt var um að litast í Kauphöllinni við lokun viðskipta í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,06% í viðskiptum dagsins og velta á aðalmarkaði nam 4,5 milljörðum króna. Alls hækkuðu 15 af 19 félögum á aðalmarkaði, tvö stóðu í stað og tvö lækkuðu.

Mest hækkaði Kvika í viðskiptum dagsins um 5,58% í ríflega milljarð króna veltu eftir að tilkynnt var um meiri samlegðaráhrif af sameiningu við TM en gert hafði verið ráð fyrir.

Næst kom Arion banki með 2,92% hækkun í 1,8 milljarða viðskiptum, og þá hækkuðu bréf Brims um 1,72%, en viðskiptin námu agnarlitlum 300 þúsund krónum.

Eimskip lækkuðu um 1,81% í 109 milljóna króna veltu og Icelandair um 0,71% í 54 milljónum. Engin viðskipti voru með bréf Regins og TM.

Sé litið til veltu taka bankarnir tveir efstu tvö sætin þar, enda hressileg velta. Bréf Símans skiptu svo um hendur fyrir þriðju hæstu upphæðina, 379 milljónir króna, sem skiluðu örlítilli hækkun gangvirðis þeirra, eða 0,15%.