Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq hefur hækkað um ríflega tvö prósentustig frá opnun markaða í morgun. Undanfarna daga hefur hún lækkað talsvert og hafa margir tengt lækkanir síðustu daga við stjórnarslit ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Aðra sögu má segja í dag, en nánast öll félög sem skráð eru hafa hækkað að Sjóvá undantöldu.

Til að mynda hefur gengi hlutabréfa Símans rokið upp það sem af er degi, um 4,24% í 285 milljón króna viðskiptum Einnig hefur hlutabréfaverð Icelandair Group hækkað mikið eða um 2,65% í 176 milljón króna viðskiptum og svipaða sögu er hægt að segja um gengi bréfa Marel sem hafa hækkað í 1,96% í 236 milljón króna viðskiptum.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær þá hafði pólitísk óvissa litað markaðinn frá stjórnarslitum. Þó kom fram í samræðum við markaðsaðila að því væri gert of hátt undir höfðu hversu mikil áhrif pólitískur óstöðugleiki hefði á markaðinn að mati þess aðila. Það virðist að minnsta kosti vera að markaðurinn hafi náð sér að einhverju leyti á strik það sem af er degi.

Um það var einnig fjallað í gær að pólitíska óvissan hefði slæm áhrif á fleiri þætti en markaðsvirði skráðra fyrirtækja. Til að mynda kom fram að kostnaðurinn við sjálfar þingkosningar sjálfar nemur mánaðarlaunum 619 ríkisstarfsmanna og ætla má að vinna við ýmis þingmál frestist nú eða fari í súginn.