Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup fjárfestingafélagsins Langasjávar á félaginu K-102, móðurfélagi sælgætisgerðarinnar Freyju. Tilkynnt var kaup Langasjávar í lok síðasta mánaðar en viðskiptin voru háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni og leiði þar af ekki til myndunar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir hann ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.

Freyja, elsta sælgætisgerð landsins, hefur verið í eigu Ævars Guðmundssonar og fjölskyldu undanfarin 42 ár.

Langisjór er móðurfélag fyrirtækja í framleiðslu og dreifingu á matvælum og sinnir einnig útleigu og uppbyggingu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar eru Alma íbúðafélag hf., Brimgarðar ehf., Mata hf., Matfugl ehf., Salathúsið ehf. og Síld og fiskur ehf.

Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra.